Héraðsskjalasafnið Ísafirði var stofnað 8. maí 1952 af bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar og sýslunefndum Ísafjarðarsýslna. Lögbundið hlutverk safnsins er að veita skjölum sveitarfélaganna á þessu starfssvæði viðtöku, en auk þess tekur safnið við einkaskjalasöfnum. Safnið er til húsa í Safnahúsinu á Ísafirði, sem er betur þekkt sem Gamla sjúkrahúsið. Meginvefur safnsins er hluti af sameiginlegum vef safnahússins og þar má finna nánari upplýsingar um starfsemi þess bæði fyrr og nú.
Á þessum vef er veittur aðgangur að skjölum sem safnið hefur fært á stafrænt snið. Flest þeirra eru á myndformi, en í einhverjum tilvikum er texti skjala eða hluti hans einnig skráður stafrænt. Vefurinn er unnin af starfsfólki safnsins, og er enn í þróun. Athugasemdum og ábendingum um virkni hans má koma til skila með tölvupósti.
Þetta er frumútgáfa vefsins, og búast má við að breytingar verði gerðar á honum eftir því sem fram líður. Sem dæmi má nefna að eins og stendur hefur vefurinn ekki verið sniðinn að spjaldtölvum og farsímum. Í framtíðinni er ætlunin að einnig verði hægt að sjá upplýsingar um skjöl sem ekki hafa verið skönnuð. Það er því líklegt að gera verði umtalsverðar breytingar á útliti vefsins og virkni hans.
Á flestum vefsíðum í dag þarf að taka fram persónuverndarstefnu vegna söfnunar upplýsinga. Svo er ekki á þessum vef: Engum persónugreinanlegum upplýsingum er safnað, og vefurinn styðst ekki við vafrakökur í neinum tilgangi.
Söfnun upplýsinga er ekki eina hliðin á persónuvernd. Skjölin sem birt eru hér á vefnum innihalda flest umtalsverðar upplýsingar um nafngreint fólk. Ef þú telur að skjal sem birt er á vefnum innihaldi upplýsingar sem ekki eigi að vera opinberar biðjum við þig að hafa samband við safnið og láta okkur vita.